Basko afkomutilkynning vegna 2015

By December 7, 2016 Uncategorized

Vörusala Basko jókst um 21% milli ára

 

Mikill vöxtur var í vörusölu hjá Basko ehf. árið 2015 og nam vörusala ársins 9.572 milljónum króna og jókst því um 21% á milli ára.   Basko ehf. fer með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu ellefu ehf. (10-11), dótturfélagi þess Drangaskeri ehf. (rekstraraðila Dunkin Donuts), Íslandi Verslun hf. (Iceland) og Imtex ehf. sem er vöruhús samstæðunnar.  Hjá Basko starfa tæplega 500 manns og er félagið,  samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins um matvörumarkaðinn frá því í mars 2015, þriðji stærsti aðilinn í sölu matvara á höfuðborgarsvæðinu.

EBITDA hagnaður Basko nam 141 milljónum á árinu og stóð í stað á milli ára en miklar breytingar áttu sér stað á liðnu ári með opnun Dunkin Donuts, flutningum á skrifstofu og vöruhúsi ofl.

Vörusala 10-11 nam 6.556 milljónum króna og jókst um 25% milli ára.

Vörusala Iceland nam 2.864 milljónum króna og jókst um 8,2% milli ára.

Vörusala Dunkin Donuts nam 153 milljónum króna en félagið hóf starfsemi í ágústmánuði 2015.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Basko, segir mikla og góða uppbyggingu hafa verið hjá samstæðunni að undanförnu „Við opnuðum fyrsta Dunkin Donuts kaffihúsið á Íslandi í ágústmánuði 2015 með eftirminnilegum hættiHöfuðstöðvar okkar og vöruhús fluttum við á einn stað og erum nú í Klettagörðum 6 en þar er einnig miðlæg starfsemi Dunkin. Eins opnuðum við tvær verslanir undir nafninu Háskólabúðin, fluttum Inspired By Iceland verslun okkar ofl.  Framangreindir atburðir lituðu mjög afkomu ársins ásamt því sem kjarasamningshækkanir höfðu mikil áhrif á kostnað samstæðunnar á liðnu ári “, segir Árni.

Á árinu 2016 hefur verið áframhaldandi vöxtur hjá samstæðunni, við höfum bætt við þremur Dunkin Donuts kaffihúsum við þau tvö sem opnuð voru á árinu 2015, á Fitjum, í Hagasmára og í Leifsstöð. Þá opnuðum við stærri og endurbætta 10-11 verslanir á Fitjum og í Leifsstöð samhliða opnun Dunkin Donuts og Ginger.   Í lok ágúst var gengið frá kaupum Horns III slhf., framtakssjóðs í rekstri Landsbréfa, á 80% hlut í Basko ehf.  Þar kom inn mjög sterkur hluthafi í Basko sem mun styrkja félagið og gefa okkur aukinn kraft í komandi verkefnum.  Það er því búið að vera nóg að gera hjá okkur“ segir Árni Pétur Jónsson.

Um 10-11: Félagið rekur 32 verslanir undir merkjum 10-11. Auk þess á 10-11 tvær verslanir sem reknar eru undir merkjum Háskólabúðarinnar, eina Inspired by Iceland verslun og hamborgarastað undir merkjum Bad Boys.

Um Dunkin Donuts:  Félagið er með einkaleyfi Dunkin´ Donuts á Íslandi og rekur fimm kaffihús á Laugavegi, í Kringlunni, í Hagasmára Kópavogi, á Fitjum í Reykjanesbæ og í Leifsstöð.

Um Iceland:  Félagið rekur 3 verslanir undir merkjum Iceland. Tvær þeirra eru staðsettar í Breiðholti, eða í Vesturbergi og í Arnarbakka. Ein verslun er staðsett í Engihjalla í Kópavogi.

basko-samstaeda-arsreikningur-ye-2-16